HAFDÍS HRÖNN HAFSTEINSDÓTTIR

Í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi

Málefni

Við þurfum að halda áfram veginn og byggja ofan á það sem vel hefur verið gert og leggja mitt á vogaskálarnar til að sjá til þess að við byggjum hér fjölbreytt, öruggt og framsækið samfélag.

Það eru mikil sóknarfæri fyrir Suðurland en hér eru þarfir íbúa fjölbreyttar og kjördæmið víðfermt. Hér eru ferðaþjónustuaðilar, bændur, sjómenn, frumkvöðlar og sérfræðingar aðrir hver á sínu sviði. Hér eru einstaklingar, foreldrar, ömmur og afar, börn á öllum aldri, börn með mismunandi þarfir. Það er því mikilvægt að líta á hvar liggja hagsmunir heildarinnar – það er jú í atvinnu og öruggu samfélagi. Þegar ég sé fyrir mér Suðurland þá er það kjördæmi fullt af grósku og vexti líkt og hefur verið undanfarin ár að frá töldu því sögulega ári 2020.

Atvinna er það sem sér til þess að hjól samfélagsins snúast, kaupmáttur helst stöðugur og fólk hafi ofan í sig og á. Geti séð börnum sínum farborða og í því felst slíkt öryggi sem verður hvergi fundið annars.

Til að hér geti orðið öruggt samfélag vinnandi fólks og fjölskyldna þarf öfluga löggæslu og almannavarnir sem eru víðtækur þekkingargrunnur allrar náttúruvár sem Ísland tekst á við nánast á ári hverju. Sunnlendingar hafa hvað mest þurft að eiga við náttúruöflin og þann kraft sem þeim fylgir.