HAFDÍS HRÖNN HAFSTEINSDÓTTIR

Í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi

Fjölskyldan og menntamálin

Mig langar að sjá menntakerfið tryggja börnum jafnan aðgang að þeim tækifærum sem menntun hefur uppá að bjóða. Það eru tækifæri til þess að endurskoða hvernig við menntum börnin okkar, finna styrkleika þeirra og leyfa þeim að blómstra á sínu áhugasviði og byggja ofan á þar. Með því að koma enn frekar til móts við þarfir þeirra – bjóða uppá öðruvísi kennsluaðferðir, réttan stuðning og ákveðna víðsýni á þær áskoranir sem börn með sérþarfir standa frammi fyrir dag hvern, sé ég fyrir mér að við getum alið af okkur einstaka og bráðklára einstaklinga sem munu vera þjóðargersemar til lengri tíma. Heimsklassa sérfræðingar á sínu áhugasviði!

Það eru tækifæri til þess að auka og efla íþróttaiðkun barna og koma til móts við fjölskyldur með enn frekari hætti. Nú þegar hefur félagsmálaráðherra stigið stöndug skref í þá átt og aukið til muna stuðning við barnafjölskyldur til að tryggja íþróttaiðkun barna. Að styðja við íþróttaiðkun barna snemma á lífsleiðinni þá kennum við börnunum okkar aga og góðar venjur sem nýtast þegar fram líða stundir. Íþróttaiðkun kennir einnig samvinnu, samkennd, metnað og elju. Rannsóknir hafa sýnt að þau börn sem stunda íþróttir frá unga aldri eru líklegri til að sækja sér og klára háskólamenntun. Með því að styðja vel við börnin okkar og fjölskyldur þeirra að þessu leiti aukum við til muna heilbrigði þjóðarinnar. Við höfum alla burði til þess að skapa hér heilbrigt samfélag með lýðheilsu að leiðarljósi.

Svo sé ég fyrir mér að ef við byrjum snemma á að fræða og stuðla að lýðheilsu og hreyfingu fólks þá munum við sjá hér hóp fólks á efri árum sem hefur byggt undir grunnstoðirnar og býr þar með við betri heilsu.